Hvernig sel ég?

leiðbeiningar
07.Dec 2023

Að skrá hlut

Þegar þú byrjar á því að skrá hlut þá færðu fyrst valmöguleika um að skrá flokk hlutarins sem þú vilt bjóða upp. Flokkarnir hafa mismunandi útfyllingarreiti og í sumum tilfellum bætast við gjöld í flokki sem kaupandi greiðir, til dæmis höfundarréttargjöld á listmuni.

Ef þú veist ekki í hvaða flokk þinn hlutur ætti að fara eða þú finnur ekki flokkinn þá getur þú samt sem áður haldið áfram og skráð hlutinn, en þegar þú sendir hann áfram í yfirferð þá mun sá sem fer yfir skráninguna finna rétta flokkinn og mögulega biðja þig um að bæta við upplýsingum sem þörf er á áður en hluturinn er birtur.

Hafðu það í huga þegar þú ert að fylla út skráningareyðublaðið að gera eins góða grein fyrir hlutnum þínum og hægt er þannig að kaupandi geti gert sér grein fyrir ástandi hans, útliti og smáatriðum sem geta skipt máli fyrir þann sem vill bjóða í hlutinn þinn.

Passaðu að lýsing sé góð þegar þú tekur myndir af honum og að myndirnar séu í fókus og í góðri upplausn til að þær sómi þínum hlut vel.

Það skiptir miklu máli að lýsingin gefi góða mynd af því í hvaða ástandi hluturinn er og að þú takir fram allt sem getur skipt máli við mat þeirra sem bjóða í hlutinn, hvert verðmætið getur verið.

Ekki aðeins skiptir máli að ástandi sé lýst vel og að myndir fylgi af öllum ágöllum sem kunna að vera á þínum hlut, heldur getur saga hlutarins haft mikil áhrif á það hversu mikill áhugi er á honum og hversu margir vakta og bjóða í hlutinn þinn.

Verðmat og lágmarksverð

Þú getur slegið inn verðmat hlutar sem sérfræðingur fer yfir en verðmatið getur verið nýtt til að stilla upphæð fyrsta boðs, það er hins vegar ekki gert án þess að sérfræðingur ráðfæri sig við þig fyrst. Þú getur slegið inn verðbil, verðmat frá og verðmat til til að gefa hugmynd um þær væntingar sem þú hefur til söluverðs hlutarins.

Þú getur sett lágmarksverð á hlutinn, en lágmarksverðið er lægsta verð sem þú myndir selja hlutinn á. Ef þú setur lágmarksverð þá ertu ekki búin að skuldbinda þig til að selja fyrr en einhver hefur boðið að minnsta kosti lágmarksverðið í hlutinn þinn.

Ef þú setur ekki lágmarksverð, eða lágmarksverði hefur verið náð, þá ert þú með því að óska eftir birtingu á hlutnum, búin að skuldbinda þig samkvæmt okkar skilmálum til að selja hlutinn.

Sending á hlut

Þú getur valið hvort þú krefst þess að kaupandi sæki eða hvort það sé valkostur.

Þú getur fyllt út upplýsingar fyrir kaupanda sem aðeins sá sem kaupir hlutinn fær afhendar, sem snúa að því hvernig hann getur nálgast hlutinn sinn, til dæmis, ef það er ákveðinn tími, dagar eða staðsetning sem hann getur nálgast hlutinn á og símanúmer ef kaupandinn á að hringja áður en hann leggur af stað eða þegar hann er kominn.

Þú getur valið að bjóða uppá sendingu á hlut og getur sett inn sendingarkostnað sem bætist þá við hæsta boð kaupanda og hann greiðir. Sendingarkostnaður er föst upphæð, en þú skalt gera ráð fyrir því að þú þurfir að greiða fyrir rekjanlega sendingu með undirskrift viðtakanda til að þú getir sýnt fram á að hluturinn hafi verið afhendur þegar komið er að því að fá greitt fyrir hlutinn. Sjá neðar í Að fá greitt fyrir hluti.

Ef þú ert ekki tilbúin til að senda hlut til skoðunar strax, þá getur þú vistað drögin og haldið áfram með þau síðar. Drög eru aðgengileg þegar þú velur “Selja” hnappinn í valmyndinni á vefnum okkar.

Passaðu að fara vel yfir skráninguna þína áður en þú sendir hana til skoðunar.

Að senda hlut til skoðunar

Uppboð.com teymið eða sérfræðingur í þeim flokki hluta sem þú vilt bjóða upp fer yfir skráninguna þína og tryggir að lýsing og myndir séu nægilega góðar. Einnig er farið yfir uppboðið sem óskað er eftir því að setja hlutinn í, flokkunina og hvort allar upplýsingar fullnægjandi til að hægt sé að hefja uppboð.

Sérfræðingur getur gert breytingar ef þörf krefur á skráningunni en ef um miklar breytingar er að ræða þá getur sérfræðingurinn sent hlutinn aftur til þín og óskað eftir breytingum. Sérfræðingur metur hvort breytingarnar séu smávægilegar og hægt að birta hlutinn eða hvort hann sendi aftur til þín hlutinn til breytinga eða ráðfæri sig við þig áður en hluturinn er sendur í birtingu.

Sérfræðingar okkar hafa hagsmuni seljanda og kaupenda alltaf að leiðarljósi, að vefurinn okkar sé samfélag þar sem ríkir traust en breytingar sem gerðar eru á skráningum eru alltaf til þess fallnar að lýsa hlut betur, að gefa væntanlegum kaupendum betri mynd af hlutnum en einnig að passa að hlutum sé lýst þannig að rétt verð fáist fyrir þá.

Þú og við erum að setja mikið traust á okkar sérfræðinga sem eru reynsluboltar í þeim flokki sem um ræðir og hafa innsýn sem á að veita kaupendum og seljendum meiri vissu fyrir því að hægt sé að nota vefinn okkar með þeirri vissu að hér ríki traust.

Sérfræðingur getur einnig hafnað skráningu og færðu þá útskýringar á því hvers vegna hlutnum hefur verið hafnað, þá getur þú gert breytingar á skráningunni þinni og reynt aftur í því tilfelli að höfnunin snýr að skráningunni sjálfri en ekki hlutnum sem slíkum.

Þegar hluturinn hefur verið sendur til yfirferðar er hægt að afturkalla hann þangað til að yfirferð á skráningunni er hafinn, eftir það er ekki hægt að afturkalla skráningu.

Í því tilfelli að þú vilt afturkalla skráningu getur þú sent skilaboð á [email protected] og við aðstoðum þig af fremsta megni.

Ef þú hefur óskað eftir birtingu á hlut og uppboð er hafið skaltu hafa í huga að salan er skuldbindandi eftir að lágmarksverði hefur verið náð og ef þú getur ekki uppfyllt þínar skildur sem seljandi ertu ábyrgur fyrir þeim gjöldum sem eiga við um söluna samkvæmt notendaskilmálum og söluskilmálum sem allir sem ætla að skrá hluti eiga að kynna sér.

Þegar hluturinn þinn er boðinn upp

Þegar þú færð tilkynningu um að hluturinn þinn sé birtur eða að uppboð sé hafið á hlutnum, getur það hjálpað áhuga á honum að deila uppboðinu inná hópa og síður sem þú hefur aðgang að þar sem þú veist að fólk sem hefur áhuga á hlut eins og þínum heimsækir reglulega.

Við og okkar sérfræðingar auglýsum á samfélagsmiðlum og öðrum miðlum þau uppboð sem eru í gangi en þú sem partur af okkar samfélagi ert mikilvægur sendiherra fyrir þinn hlut og því hjálpar það alltaf ef þú getur vakið athygli á uppboðinu.

Oft færist fjör í leikinn þegar nær dregur lokum uppboðs á hlutnum þínum en þegar uppboði lýkur færðu tilkynningu frá okkur þar sem niðurstaða uppboðsins er kynnt fyrir þér, seldist hluturninn og hvert var verðið, komu boð sem ekki náðu lágmarksverði og viltu selja hlutinn undir lágmarksverði, komu kannski engin boð og viltu bjóða hlutinn upp aftur?

Að afhenda hluti sem seljast

Þegar hluturinn þinn hefur selst hæstbjóðanda og þú færð tilkynningu um að kaupandi sé búinn að greiða færðu líka upplýsingar um kaupandann, hvort sem kaupandi sækir eða fær sent.

Þegar þú afhendir hlutinn beint til kaupanda er mikilvægt að merkja hlutinn afhendann í kerfinu okkar og óska eftir því að hann merki hlutinn móttekinn þegar þú afhendir hlutinn til hans. Þetta er mikilvægt til að við vitum að kaupandinn hafi sannarlega tekið við hlutnum og að við getum hafið greiðsluferli til þín.

Þegar þú sendir hlut til kaupanda þá getur þú merkt hlutinn í kerfinu að hann hafi verið póstlagður og þegar þú færð tilkynningu frá sendingaraðila um að hluturinn hafi verið móttekinn af kaupanda, þá getur þú merkt hlutinn afhendann. Mikilvægt er að gera það ekki fyrr en afhending hefur átt sér stað, því þegar þú merkir hlut afhendann þá fær kaupandi líka tilkynningu þar sem hann er beðinn um að staðfesta móttöku. Ef kaupandi mótmælir því að hann hafi móttekið hlutinn þá getur það tafið greiðslu til seljanda þar sem við þurfum að skoða hvert mál sem upp kemur þar sem vandamál rísa vegna afhendingu hlutar.

Ferlið er því einfalt:

Ef kaupandi sækir:

  1. Merkja hlut afhendann þegar kaupandi er hjá þér
  2. Passa að kaupandi staðfesti móttökuna

Ef þú sendir:

  1. Merkja hlut póstlagðann þegar þú sendir
  2. Merkja hlutinn afhendann þegar þú færð staðfestingu sendingaraðila á afhendingu

Mundu að þú berð ábyrgð á hlutnum þar til kaupandi hefur móttekið hann og því er mikilvægt að senda hluti með rekjanlegum hætti og tryggja þá ef um hluti er að ræða sem geta skemmst í flutningi.

Að fá greitt fyrir hluti

Þegar kaupandi hefur staðfest móttöku hlutar eða 72 tímar eru liðnir frá því að þú hefur merkt hlut afhendann og kaupandi hefur ekki mótmælt því, þá hefjum við greiðsluferli til þín.

Þú færð reikning fyrir seljendaþóknun okkar samkvæmt gjaldskrá og til greiðslu til þín kemur hæsta boð að frádreginni þeirri upphæð ásamt sendingarkostnaði sem þú hefur bætt við söluverð.

Við greiðum út á miðvikudögum fyrir þá hluti sem hafa verið mótteknir af kaupendum og/eða hafa verið merktir afhendir og frestur kaupenda er liðinn (72 klukkustundir) til að gera athugasemdir.

Skil og bakfærslur

Kaupendur geta gert athugasemdir við hluti þegar þeir fá þá í hendurnar og ef lýsing eða myndir passa ekki við hlutinn og því leggjum við mikla áherslu á það að lýsing og myndir séu fullnægjandi til að kaupandi geti gert sér raunhæfar væntingar um ástand hlutarins sem hann býður í og kaupir.

Það er sérlega mikilvægt að setja alla sértæka skilmála sem gilda um vöruna í vörulýsinguna en þeir skilmálar mega ekki stangast á við okkar skilmála sem allir notendur okkar samþykkja.

Í þeim tilfellum að upp kemur ágreningur er best ef þú sem söluaðili getur fundið viðunandi lausn með kaupanda en við áskiljum okkur rétt til að stíga inní ef ekki finnst lausn sem aðilar geta sætt sig við.

Top